*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 25. maí 2018 09:16

Hampiðjan færir út kvíarnar

Félagið eignast hinn helminginn í Fjarðarnetum á 114 milljónir króna, en Hampiðjan skoðar auk þess kaup á félagi í Kanaríeyjum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hampiðjan skoðar kaup á félagi í Kanaríeyjum auk þess að eignast nálega 97% af öllu hlutafé í Fjarðarnetum.

Hampiðjan er að skoða kaup á spænska félaginu Tor-Net LP, S.L. sem staðsett er og starfrækt í Las Palmas á Kanaríeyjum. Velta Tor-Net LP á árinu 2017 nam 3,1 milljónum evra, eða sem samsvarar 385 milljónum íslenskra króna. Velta Hampiðjunnar hf. á árinu 2017 nam tæpum 127 milljónum evra, eða sem samsvarar 15,8 milljörðum íslenskra króna.

Hampiðjan hf. hefur auk þess samið um kaup á hlutum Fjárfestingafélagsins Varar hf., Síldarvinnslunnar hf. og Kaupfélags Fáskrúðsfjarðar svf. í Fjarðanetum ehf., samtals um 46% af hlutafé Fjarðaneta. Eftir kaupin fer Hampiðjan hf. með um 97% hlutafjár í félaginu. Kaupverð bréfanna nemur rúmum 114 milljónum króna.

Minni hluthafar fá kauptilboð á sama gengi

Kaupverðið verður greitt með eigin bréfum Hampiðjunnar hf. og verða viðskiptin framkvæmd á genginu 38,5 sem er sama gengi og gengi á markaði í lok dags. Gengið verður frá kaupunum þann 25. maí 2018.

Hampiðjan mun í framhaldinu senda kauptilboð til annarra minni hluthafa Fjarðaneta á sama gengi. Hampiðjan fór með 51% hlut í félaginu fyrir kaupin og var félagið því hluti af samstæðuuppgjöri Hampiðjunnar hf. Áhrif kaupanna á uppgjör samstæðu Hampiðjunnar eru því takmörkuð.