Samþykkt var á aðalfundi Hampiðjunnar, sem haldinn var þann 27. mars síðastliðinn, að greiddur yrði arður til hluthafa að fjárhæð 326 milljóna króna í heildina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu .

Fyrirtækið hagnaðist um 7,7 milljónir evra á síðasta ári, eða um 1,1 milljarð íslenskra króna, en hagnaðurinn nam 7,6 milljónum evra ári fyrr. Tekjur jukust jafnframt á milli ára úr 50,4 milljónum evra í 54 milljónir evra.

Á aðalfundinum voru þóknanir til stjórnarmanna jafnframt samþykktar, og munu þær nema 1,2 milljónum króna fyrir liðið ár, en formaður stjórnar fær þrefaldan hlut.

Þá var samþykkt heimild stjórnarinnar til kaupa á eigin hlutum í félaginu, en heimildin mun standa í átján mánuði og takmarkast við að samanlögð kaup fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma.