Hampiðjan hefur ákveðið að hætta viðræðum um kaup á norska fyrirtækinu Mørenot sem er þjónustuveitandi í sjávarútvegi, fiskeldi og olíuiðnaði. Þetta kemur fram í tilkynningu í kauphöllinni, en Hampiðjan er skráð þar á First North markaðinn.

Eins og Fiskifréttir sögðu frá í lok síðasta árs var Hampiðjan talin líkleg til að verða fyrir valinu, en fyrirtækið var eitt tveggja til þriggja fyrirtækja sem komin voru á lokastig í söluferli fyrirtækisins.

Kaupverð Mørenot er talið um 800 milljónir norskra króna, sem samsvarar um 10 milljörðum íslenskra króna en fyrirtækið er samkeppnisaðili Hampiðjunnar á ýmsum sviðum, og framleiðir auk veiðarfæra ýmsar aðrar vörur tengdar útgerð og sjómennsku.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur Hampiðjan keypt upp nokkur fyrirtæki í sama geira. Má þar nefna þrjú netaverkstæði í Kanada fyrir 110 milljónir sem var hluti af NAMSS. Einnig keypti félagið P/f Von í Færeyjum sem er móðurfélag þriggja annarra félaga sem starfa við fiskeldi og þróun á veiðarfærum og fiskeldisbúnaði.

Á vef Fiskifrétta má sjá viðtal við Hjört Erlendsson forstjóra Hampiðjunnar um kaupin og sókn félagsins.