Hampiðjan hagnaðist um 8,3 milljónir evra, eða sem nemur tæplega 1,2 milljörðum króna miðað við núverandi gengi, á fyrri helmingi árs. Til samanburðar hagnaðist félagið um 9 milljónir evra á sama tímabili í fyrra, sem jafngildir um 1,3 milljörðum króna. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins.

Velta samstæðunnar jókst um 8,3% milli ára og nam 94,8 milljónum evra, eða um 13,3 milljarða króna, á fyrstu sex mánuðum ársins.

„Söluaukning varð hjá nær öllum fyrirtækjum innan samstæðunnar og munar þar mest um aukna sölu hér á Íslandi í kjölfar góðrar loðnuvertíðar, sölu til fiskeldis og fiskveiða í Færeyjum og N-Noregi og til fiskveiða í Skotlandi,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar í tilkynningu.

Hagnaður Hampiðjunnar fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir lækkaði um 7,5% á milli ára og nam 14,6 milljónum evra á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Heildareignir samstæðunnar jukust um 20 milljónir evra á milli ára og námu 293 milljónum evra á tímabilinu. Eigið fé Hampiðjunnar nam 146 milljónum evra, eða sem nemur rúmlega 20 milljörðum króna, og var eiginfjárhlutfallið tæp 50%.