*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 30. ágúst 2021 14:01

Hampiðjan hagnast um 1,3 milljarða

Velta Hampiðjunnar á fyrri helmingi ársins jókst um 8,6% frá fyrra ári en nam 13,2 milljörðum króna.

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar
Eva Björk Ægisdóttir

Hampiðjan skilaði 9 milljóna evra hagnaði, sem jafngildir um 1,3 milljörðum króna miðað við núverandi gengi, á fyrri helmingi ársins samanborið við 8 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins.

Velta samstæðunnar jókst um 8,6% milli ára og nam 87,6 milljónum evra, eða um 13,2 milljarða króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Aukningin skýrist þó að hluta til vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á fyrri helming síðasta árs þegar tekjur drógust saman um 5,5%. Veltan á fyrri árshelmingi 2021 var 2,6% meiri en á fyrri helmingi ársins 2019.

Hagnaður Hampiðjunnar fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) hækkaði um 12,3% á milli ára og nam 15,7 milljónum evra á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Heildareignir samstæðunnar jukust um 2 milljarða króna frá áramótum námu 39,1 milljarði króna í lok júní. Þar af nam eigið fé 20,3 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið því 52,0%.

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar:

„Velta samstæðu Hampiðjunnar á fyrri helmingi ársins jókst um 8,6% miðað sama tímabil í fyrra. Aukningin skýrist að hluta til vegna áhrifa Covid-19 faraldursins á tölur fyrra árs. Það ár var samdráttur í tekjum um 5,5% miðað við sama tímabil ársins 2019 en rétt er að hafa í huga að síðasta ár í heild sinni skilaði sömu sölu og árið áður.

Veltuaukning á fyrri hluta þessa árs varð á Írlandi, Kanada, Ástralíu, Færeyjum, Noregi, Bandaríkjunum og Skotlandi en á móti dróst veltan saman á Nýja Sjálandi og Kanaríeyjum og einnig í Danmörku eftir metsölu síðasta árs.  

Mikil umskipti hafa átt sér stað í sölutekjum dótturfélagsins Hampiðjan Ísland eftir erfitt síðasta ár sem einkenndist af loðnuleysi og að annar meginmarkaður fyrirtækisins, Rússland, lokaðist nær alveg fyrir sölum vegna Covid og gengisfalls rúblunnar í fyrra. Nú veiðist aftur loðna við Íslandsstrendur og afar góðar sölur hafa verið til Rússlands í ár.

Starfsemi Hampiðjunnar nær nú til 15 landa og eru starfstöðvarnar orðnar 44. Fjöldi fyrirtækjanna í samstæðunni hjálpar til við að jafna út sölu og afkomu milli ára því þótt samdráttur verði á einu svæði getur orðið aukning á öðrum. Af sölutekjum Hampiðjunnar á síðasta ári komu um 87% erlendis frá.

Hampiðjan hefur ekki farið varhluta af hækkunum á hráefnisverðum frekar en önnur fyrirtæki en mikilvægustu hráefnin eru polyethylene plastefni og nylon þræðir ásamt ofurefnum sem eru með sama styrk og stál. Ofurefnin hafa ekki hækkað í verði en hinsvegar hafa hin tvö hráefnin hækkað mjög mikið í verði og framboð verið takmarkað.

Verðhækkaninarnar hafa þó ekki haft áhrif á reksturinn því tekist hefur að koma þeim inn í vöruverðið með tímabundnum álögum. Vegna takmarkaðs framboðs hefur reynst nauðsynlegt að byggja upp hráefnislagerstöðuna til að tryggja ótruflaða framleiðslu og hefur það gengið vel. Þessi lageraukning ásamt hráefnaverðshækkunum og öðrum hækkunum á aðföngum hefur leitt til að birgðir samstæðunnar hafa aukist en aukning í birgðum er þó í samræmi við aukna veltu á tímabilinu.

Hækkun á útistandandi viðskiptakröfum og samhliða því hækkun á viðskiptaskuldum skýrist alfarið af góðri sölu í lok tímabilsins og eru þessir liðir yfirleitt töluvert hærri á miðju ári en um áramót.

EBITDA samstæðunnar eykst um 12,3% á milli ára og er nú, sem hlutfall af sölu, 18,0% samanborið við 17,4% á fyrrihluta síðastliðins árs. Hagnaður félagsins eykst einnig á milli tímabila og er 9,0 m€ samanborið við 7,9 m€ áður.

Enn eru möguleikar á hagræðingu til staðar innan samstæðunnar sem felast í sölum á efnum frá framleiðslufyrirtækinu Hampidjan Baltic til annara fyrirtækja innan samstæðunnar.

Vélafjárfestingar ársins hafa að mestu snúið að fiskeldisþjónustu og þá helst í N-Noregi og í Færeyjum en á þessum stöðum hefur verið þörf á því að stækka þvottavélalínur fyrir fiskeldiskvíar og vatnshreinsibúnað sem fylgir því. Einnig hefur verið fjárfest í fullkomnari netastrekkitækjum í Hampidjan Baltic í Litháen sem ásamt núverandi búnaði munu tryggja forystu Hampiðjunnar í gæðum nylonneta til fiskveiða“.

Stikkorð: Hampiðjan