Hagnaður Hampiðjunnar, á fyrstu sex mánuðum ársins nam 13,6 milljónum evra eða því sem nemur um 1,7 milljörðum íslenskra króna. Hagnaður félagsins jókst um 2,5 milljónir evra frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Hampiðjunnar.

Rekstrartekjur félagsins námu 63,8 milljónum evra og jukust um 7,3% frá fyrstu sex mánuðum fyrra árs. EBITDA félagsins hækkaði um 12% á milli tímabila eða úr 8,5 milljónum evra á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 í 9,5 milljónir evra á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Heildareignir í lok tímabilsins námu 199,7 milljónum evra á meðan vaxtaberandi skuldir námu 74,2 milljónum. Eiginfjárhlutfall var 51,2% í lok júní samanborið við 48,1% í lok sama tímabils í fyrra.

Í tilkynningu frá Hampiðjunni segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri félagsins:

„Rekstur og afkoma fyrirtækja Hampiðjunnar erlendis hefur verið góður og framar vonum á fyrri hluta ársins. Verkfall sjómanna í byrjun ársins dró úr sölu innanlands meðan á því stóð en áhrif þess eru þó minnkandi eftir því sem á líður. Í heildina hefur sala samstæðunnar aukist töluvert á fyrri hluta ársins miðað við sama tímabil síðasta ár.

Samið var um kaup á félaginu Voot Beita ehf. í sumarbyrjun og eru kaupin til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu og samþykktar er vænst á næstu vikum.

Samþætting í kjölfar kaupanna á P/f Von í Færeyjum á síðasta ári hefur gengið vel og rekstur félagsins hefur staðið fyllilega undir væntingum fram til þessa og félagið skilað góðri afkomu."