Rekstrartekjur Hampiðjunnar námu 14,5 m. evra á fyrstu þremur mánuðum ársins og jukust því um 3,5% frá 14,0 m. evra tekjum félagsins á sama tíma í fyrra. Þar sem framleiðslukostnaður stendur í stað milli ára skilar tekjuaukningin sér í bættri framlegð félagsins sem nú nemur 27,6% af tekjum. Til samanburðar nam framlegð félagsins 25% á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs. Annar rekstrarkostnaður hækkar hins vegar nokkuð milli ára og er því óveruleg breyting á EBITDA framlegð félagsins milli ára, er nú 10,8% saman borið við 10,5% á sama tíma í fyrra.

Þannig nemur rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði 1.569 þús. evrum saman borið við 1.467 þús. evrur á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsgjöld (EBIT) nam 1.160 þús. evrum á fjórðungnum en afskriftir nema nú 409 þús. evrum. og dragast saman um 90 þús. evrur milli ára. Sem hlutfall af tekjum nemur EBIT félagsins nú 8,0% saman borið við 6,9% á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Jákvæðir fjármagnsliðir og 833 þús. evra hlutdeild í hagnaði HB Granda
Fjármagnsliðir félagsins voru jákvæðir á fjórðungnum sem nemur 41 þús. evrum en styrking krónunnar á tímabilinu hafði þau áhrif að gengishagnaður var af innlendum peningaliðum móðurfélagsins, að því er fram kemur í tilkynningu með uppgjörinu. Fjármagnsliðir félagsins á sama tíma í fyrra voru neikvæðir um 246 þús. evrur. Þá nam hlutdeild Hampiðjunnar í hagnaði HB Granda 833 þús. evrum nú á fyrstu þremur mánuðum ársins og skýrir það ásamt jákvæðum fjármagnsliðum á tímabilinu hagnaðaraukningu félagsins að stærstum hluta milli ára ein og bent er á í Hálffimm fréttum KB banka.

Fram kemur í tilkynningu Hampiðjunnar með uppgjörinu að áætlun ársins geri ráð fyrir að rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir vexti og skatta (EBIT) verði yfir 4 m. evra. Telja forsvarmenn félagsins ekki ástæðu til að endurskoða þá áætlun.