Hampiðjan var rekin með 74 milljóna króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 156 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að reksturinn var nokkuð undir áætlun og ekki er útlit fyrir að síðari helmingur ársins nái að vinna það upp að neinu marki.

Hampiðjan vinnur að flutningi á allri framleiðslustarfsemi sinni hér á landi til dótturfélags í Siauliai í Litháen. Búið er að flytja framleiðslu á netum og innan skamms verður hafist handa við að flytja kaðla- og þráðaframleiðslu. Þá áformar Hampiðjan að flytja garnframleiðslu frá Portúgal til Litháen. Slíkum flutningum fylgja ýmist óhagræði á meðan á þeim stendur en þegar öll framleiðsla verður komin á einn stað í rekstrarlega hagstætt umhverfi, mun hagkvæmni samstæðunnar batna til muna.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu rúmum 2,3 milljörðum króna og jukust um 7% milli ára. Rekstrartekjurnar námu rúmum 2 milljörðum og hagnaður fyrir afskriftir því um 257 milljónum króna sem er 11% aukning frá fyrra ári.

Afskriftir námu 109 milljónum króna og jukust um 38% milli ára. Hagnaður fyrir fjármagnsliði nam 148 milljónum króna samanborið við 152 milljónir árið áður. Áhrif af rekstri hlutdeildarfélaga tók miklum stakkaskiptum og voru neikvæð um 10 milljónir króna samanborið við 75 milljónir árið áður.