Orkustofnun gagnrýnir drög að verndar- og orkunýtingaráætlun og segir hana ekki fullnægjandi og setji ráðuneyti og Alþini í erfiða stöðu við framhald verksins.

Uppfyllir ekki markmið laga

Greiningarvinnan sé ófullnægjandi, matið byggi á of þröngu sjónarhorni, skortur sé á samræmi í einkunnagjöf á milli áfanga og niðurstöður flokkunar séu ekki nægilega rökstuddar og séu í mörgum tilvikum handahófskenndar.

Helsta niðurstaða umsagnar Orkustofnunar um drög að lokaskýrslu að þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar er að forsendur flokkunar sem lýst er í skýrslunni byggi á veikum grunni og lýsi þröngri sýn verndunar. Þannig uppfylli vinna verkefnisstjórnar áætlunarinnar ekki markmið laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun nema að litlu leyti.

Óhóflega mikillar varfærni gætt

„Gætt er óhóflega mikillar varfærni við flokkun virkjunarkosta í nýtingarflokk, virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk án þess að forsendur um skort á gögnum séu til staðar og í mörgum tilvikum eru atriði sem eðlilega væru tekin fyrir á stigi umhverfismats framkvæmda tilgreind sem ástæða fyrir því að virkjanir flokkast ekki í nýtingarflokk,“ segir í umsögninni.

Jafnframt er tekið fram að forsendur fyrir einkunnagjöf þeirra tveggja faghópa sem flokkunin byggi á sé ekki fyrir hendi og það vanti margvíslega grunnvinnu til þess að hægt sé að bæta úr annmörkunum fyrir endanlega útgáfu skýrslunnar.

Er lögð áhersla á það í umsögn orkustofnunar að öll markmið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun verði uppfyllt í umfjöllun verkefnisstjóra. „Aðferðafræðin verður að taka á áhrifum virkjunarkosta á umhverfi, samfélag og efnahag og fjalla bæði um jákvæða og neikvæða þætti verndar og orkunýtingar. Forðast verður þrönga verndarstefnu,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.