Greiningardeild Arion vandar íslenskum stjórnvöldum ekki kveðjurnar í Markaðspunktum dagsins. Þar kemur fram að greiningardeildin telji þá ákvörðun stjórnvalda að herða á gjaldeyrishöftunum og loka fyrir útstreymi gjaldeyris vegna samningsbundinna afborgana handahófskennda og óyfirvegaða.

Í Markaðspunktunum segir ljóst að núverandi áætlun um afnám hafta sé ótrúverðug og atburðir síðustu vikna hafi gert lítið annað en að undirstrika það. Fyrirsjáanlegt sé að höftin verði ekki afnumin án verulegrar veikingar sem feli þá í sér mikla kaupmáttarskerðingu og eignabruna hér á landi.

Greiningardeildin segir þá ákvörðun sem Alþingi tók í nótt staðfesta að viðskiptajöfnuður þjóðarbúsins dugi ekki til að mæta því mikla útstreymi gjaldeyris sem fram fari í gegnum fjármagnsjöfnuðinn. Inngrip Seðlabankans í síðustu viku hafi augljóslega ekki verið til að mæta tímabundnu útstreymi sem veikt hafi krónuna líkt og fram kom í tilkynningu Seðlabankans þá.

Markaðspunktunum lýkur á einskonar hvatningu til yfirvalda:

„Hafi einhvern tímann verið tími til að hugsa út fyrir boxið varðandi gjaldeyrismál þjóðarinnar, þá er sá tími runninn upp“.