Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir janúar til febrúar 2015 hefur verið birt á vef fjármálaráðuneytisins.

Þar kemur fram að handbært fé frá rekstri hafi versnað verulega á milli ára, en það var neikvætt um tæpa 48,2 milljarða króna samanborið við jákvætt handbært fé upp á 5,3 milljarða króna í fyrra.

Segir í frétt á vef ráðuneytisins að þetta skýrist að stærstum hluta með útgreiðslum vegna þess sem þar er kallað leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána sem gjaldfærðar voru í lok árs 2014 en komu til greiðslu í janúar.

Innheimtar tekjur lækkuðu um rúma þrjá milljarða króna á milli ára og námu nú tæpum 102 milljörðum króna. Þá jukust greidd gjöld um 14,8 milljarða króna milli ára og námu þau nú tæpum 114 milljörðum króna.

Hægt er að sjá greiðsluafkomu ríkissjóðs á tímabilinu hér.