Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs batnaði gríðarlega milli ára, fór úr því að vera neikvætt um 24,9 milljarða króna á tímabilinu janúar til ágúst árið 2015 í að vera jákvætt um 56,3 milljarða króna á sama tímabili í ár.

Stöðugleikaframlag stór hluti

Skýrist þetta að stærstum hluta af stöðugleikaframlögum sem námu 68 milljörðum króna á árinu. Á árinu námu afborganir af lánum 126,7 milljörðum króna.

Aukning á innheimtum tekjum nam 21,2% miðað við fyrstu átta mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra, námu heildartekjurnar 520,4 milljörðum króna.

Fyrir utan stöðugleikaframlagið má rekja aukninguna að stórum hluta til óreglulegra tekna af arðgreiðslum sem námu samanlagt 84,1 milljarði króna. Ef leiðrétt er fyrir þessum óreglulegu tekjum er aukningin 9% milli ára.

Allar tekjur umfram áætlanir

Skatttekjur og tryggingagjöld námu 414,7 milljörðum króna fyrstu átta mánuði ársins sem er 9,6% aukning milli ára og 5,3% umfram áætlun. Jukust tekjur af tekjuskatti einstaklinga um 22,3% frá því í fyrra og nam hún 96,3 milljörðum króna. Er það 9,9% umfram tekjuáætlun.

Þessi hækkun kemur þrátt fyrir lækkun á skatthlutfalli í 1. og 2. þrepi tekjuskattsins í ársbyrjun en aukningin endurspeglar miklar almennar launahækkanir og aukna atvinnu.

Hins vegar var tekjuskattur lögaðila lægri en áætlun gerði ráð fyrir en það er vegna bráðabirgðaálagningar. Lækkunin kemur líka til vegna leiðréttingar á sérstökum fjársýsluskatti en ef hann er undanskilinn jókst tekjuskattur lögaðila um 9,3% milli ára. Nettó tekjur af fjármagnstekjuskatti námu 29,8 milljörðum króna sem var 14,1% umfram áætlun.

Stimpilgjöld skila meiru

Eignaskattar námu 5,7 milljörðum króna, þar af 3 milljarðar í stimpilgjöld og 2 milljarðar í erfðafjárskatta, en samanlagt voru eignarskattar 28,7% umfram áætlun, sem skýrist af auknum tekjum af stimpilgjöldum vegna meiri fasteignaviðskipta og hækkunar fasteignaverðs.

Skattar á vöru og þjónustu hækkuðu um 11,9% frá því í fyrra og námu 179,3 milljörðum króna. Er það 7% umfram áætlun. Þar af nemur virðisaukaskatturinn 125,9 milljörðum króna og var aukningin 11,9% á honum.