Gunnar Beinteinsson, fyrrverandi handboltamaður úr FH og íslenska landsliðinu, safnaði 3,5 milljónum króna í átakið Á allra vörum með því að hlaupa svokallað “Jungfrau” maraþon í svissnesku Ölpunum í gær. Áheitin komu frá Actavis og starfsmönnum en Gunnar er starfsmannastjóri fyrirtækisins.

Jungfrau maraþonið er gríðarlega erfitt fjallamaraþon. Hlaupið hefst í 570 metra hæð yfir sjávarmáli og lýkur í 2100 metra hæð, en hæst er farið í 2320 metra. Hækkunin er því um 1700 metrar. Til gamans má geta þess að hækkunin upp að Steini á Esjunni eru um 600 metrar. Það sem gerir þetta hlaup erfiðara en mörg önnur, er að langmesta hækkunin er eftir rúmlega 25 kílómetra.

„Búinn að vera flottur dagur hér í ölpunum í Sviss. Kláraði Jungfrau fjallamaraþonið á 5.43, sem er 25 mínútna bæting frá í því í fyrra. Þura, Auður Ýr og Helga Sif að ógleymdum tengadaforeldrunum biðu eftir mér við endamarkið. Það var mikilvægt að klára, því Actavis og vinnufélagarnir voru búnir að heita á mig. Áheitin renna til átaksins Á Allra Vörum. Einstakar stelpur þar á ferð, magnað hverju þær áorka.” sagði Gunnar á facebook síðu sinni eftir hlaupið.

Gunnar er var liðtækur með landsliðinu í handbolta, en hann á að baki 85 landsleiki og skoraði í þeim 141 mark. Hann lék allan sinn feril með FH eða 591 leik.