Héraðsdómur Reykjavíkur hefur samþykkt 12 milljóna króna almenna kröfu Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) í þrotabú Kaupþings. Á móti skuldajafnar þrotabúið kröfuna vegna yfirdráttarheimildar Handknattleikssambandsins hjá bankanum.

Dómur þessa efnis féll í héraðsdómi í morgun og snýr að auglýsingasamningi sem Kaupþing gerði við HSÍ í byrjun árs 2006 og fól í sér að bankinn yrði bakhjarl sambandsins.

Í úrskurði héraðsdóms segir orðrétt:

„Þótt ekkert sérstakt endurgjald sóknaraðila hafi verið tilgreint vegna greiðslna [...] samningsins, getur ekki farið á milli mála að fjárhagslegir hagsmunir varnaraðila af samningnum takmörkuðust ekki við þau afmörkuðu verkefni sóknaraðila. Af samningnum í heild og markmiðum hans verður ráðið að verðmæti hans fyrir varnaraðila hafi ekki síður falist í því að gera varnaraðila kleift að tengja sig og starfsemi sína við nafn sóknaraðila, svo og íslenska landsliðsins í handknattleik, með almennum hætti, sem og öðrum þeim aðferðum sem hann kysi, t.d. í kynningarefni sínu eða á heimasíðu. Fólst þannig í þessu samstarfi fjármálafyrirtækisins við íþróttahreyfingu hlutdeild í viðskiptavild þess síðarnefnda sem var til þess fallin að vera andlag gagnkvæmnra viðskipta. Samkvæmt þessu verður því ekki litið á loforð varnaraðila um styrk til handa sóknaraðila skv. 4. gr. samningsins sem einhliða örlætisgerning heldur lið í gagnkvæmu samningssambandi.“

Úrskurður héraðsdóms