Samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir árið 2008, sem nú liggur fyrir, var handbært fé frá rekstri neikvætt um 12,3 ma.kr. innan ársins, sem er 73,3 milljörðum verri útkoma en á árinu 2007.

Hreinn lánsfjárjöfnuður er neikvæður um 398,4 ma.kr., sem er 396,3 milljörðum króna lakari útkoma en árið áður og skýrist sá mismunur að mestu af aðgerðum ríkisstjórnar vegna falls bankakerfisins.

Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins í dag.

Þar kemur fram að innheimtar tekjur ríkissjóðs voru 444,8 ma.kr. á árinu 2008 sem er samdráttur um 9,3 ma.kr. frá sama tíma í fyrra, eða 2,1% samdráttur að nafnvirði.

Við samanburð milli ára er horft á niðurstöðu ríkisreiknings um innheimtar tekjur á árinu 2007 að undanskilinni tekjufærslu vegna endurmats ríkisfyrirtækja.

Þá var tekjuáætlun fjárlaga á greiðslugrunni upp á 455,5 ma.kr. og fjáraukalaga upp á 450,6 ma.kr. og eru tekjurnar því heldur minni en áætlað hafði verið, eða tæpum 6 milljörðum undir áætlun fjáraukalaga og munar þar mest um minni fjármagnstekjuskatt, minni tekjuskatt lögaðila en gert var ráð fyrir í ljósi álagningar á lögaðila og minni tekjur af sölu eigna.

Sjá nánar á vef fjármálaráðuneytisins.