Handelsbanken verður aðili að OMX Nordic Exchange á Íslandi frá og með miðvikudeginum 2. maí. Bankinn getur þar með hafið viðskipti á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Handelsbanken er nú þegar aðili að Nordic Exchange í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Helsinki. Handelsbanken er fyrsta alþjóðlega fjármálastofnunin sem verður aðili að íslenska verðbréfamarkaðnum eftir samruna Kauphallarinnar við OMX Nordic Exchange í árslok 2006. Handelsbanken verður þar með fullgildur aðili að Nordic Exchange á Norðurlöndunum.

?OMX Nordic Exchange á Íslandi býður Handelsbanken innilega velkominn. Útvíkkun bankans á aðild sinni sýnir svo ekki verður um villst að samruninn við OMX hefur fært íslenska markaðnum aukinn sýnileika. Handelsbanken er fyrsti aðilinn sem bætir Íslandi við OMX-aðild sína á Norðurlöndunum og við erum þess fullviss að fleiri munu fylgja í kjölfarið á næstu mánuðum. Bankinn mun núna geta boðið viðskiptavinum sínum upp á ýmis ný tækifæri gegnum sömu tengingu við Nordic Exchange og áður,? segir Þórður Friðjónsson, forstjóri OMX Nordic Exchange á Íslandi.

Handelsbanken er alþjóðlegur banki sem var stofnaður 1871. Hann er stærsti bankinn í Svíþjóð og þriðji stærsti bankinn á Norðurlöndunum í útlánum til einstaklinga. Bankinn rekur 600 útibú og er með starfsemi í 20 löndum. Heildareignir hans eru jafnvirði 1.790 milljarða sænskra króna og hann skilaði 17,2 milljarða hagnaði á árinu 2006. Hjá bankanum starfa 10.000 starfsmenn og lánshæfismat hans er: Moody?s Aa1, S&P AA-, Fitch AA-.

Helsta fjárhagslega markmið bankans er að sýna meiri arðsemi eiginfjár en aðrir sambærilegir skráðir bankar á Norðurlöndunum að meðaltali. Handelsbanken var annar stærsti kauphallaraðilinn að Nordic Exchange í Stokkhólmi og jafnframt annar stærsti norræni aðilinn að OMX Nordic Exchange í heild á árinu 2006.

Kauphallaraðilar að Nordic Exchange eru 160 í 13 löndum. Auðkenni bankans í viðskiptakerfinu er SHB. Aðild bankans að viðskiptakerfinu verður virk frá deginum í dag.