Að minnsta kosti eitt og í mesta lagi fimm pör í sambúð eiga meira en einn milljarð króna á bankareikningum, að því er kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrispurn Margrétar Tryggvadóttur, alþingismanns. Vildi Margrét fá að vita hver heildarfjárhæð innstæðna í eigu einstaklinga væri og hve margir ættu fjárhæðir á tilteknum upphæðarbilum, t.d. hversu margir ættu innstæður á bilinu 95-105 milljónir króna.

Í þeim tilvikum þar sem færri en tíu eru í hverjum flokki er talan ekki gefin upp í svari ráðherra.

Vegna þess að heildarfjárhæðin er samt sem áður gefin upp er hægt að slá á fjölda einstaklinga. Heildarinnstæður yfir einum milljarði nema rétt tæpum sex milljörðum króna og eru þær allar í eigu hjóna eða sambúðarfólks. Má því ætla að að minnsta kosti ein hjón og í mesta lagi fimm hjón eigi svo háar fjárhæðir á reikningum sínum.

Tvenn hjón og einn einstaklingur eiga innstæður á bilinu 700-800 milljónir og fimm einstaklingar og ein hjón innstæður á bilinu 500-600 milljónir. Alls eru það því sex einstaklingar og fjögur til níu pör sem eiga hálfan milljarð eða meira á bankareikningum.

Í svarinu kemur einnig fram að tæplega 80.000 íslendingar eiga ekki krónu á bankareikningum, samkvæmt skattframtölum fyrir árið 2012.

Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur