Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, hefur að nýju lagt fram frumvarp um að handhafar forsetavalds fái ekki greitt aukalega fyrir að gegna störfum forsetans. Handhafar forsetavalds eru forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar.

„Stjórnarskráin kveður á um að þessir þrír einstaklingar skuli fara með vald forseta í fjarveru hans og því er eðlilegt að líta svo á að þau aukaviðvik sem þeir sem slíkir inna af hendi séu innifalin í starfskjörum sem þeim eru ákveðin af kjaradómi fyrir meginstarf þeirra. Því sé ekki sérstök ástæða til að greiða þeim aukaþóknun fyrir handhafahlutverkið,“ segir í greinargerð með frumvarpi Árna Þórs.

Í greinargerðinni er bent á að kostnaður ríkissjóðs vegna handhafa forsetavalds nemi um 10 milljónum króna á ári og mun sú fjárhæð sparast verði frumvarpið að lögum. Lagt er til að þessi breyting taki gildi 1. janúar 2014.