Nýverið gerði Handpoint greiðsluþjónustusamning í Suður-Afríku. Þeir hafa nú þegar skrifað undir samning um notkun á Handpoint snjallposa sem komast í gagnið undir lok þessa árs. „Við erum í innleiðingarferli í Suður Afríku og munum svo færa okkur yfir í önnur nærliggjandi ríki á næsta ári. Þetta er mjög spennandi markaður og mjög stór innleiðing á okkar greiðslulausn,“ segir Davíð Guðjónsson, framkvæmdastjóri Handpoint.

„Þetta virkar þannig að kaupmaður í Suður-Afríku tekur á móti kortagreiðslum í símanum sínum með aðstoð Handpoint snjallposa. Kortagreiðslan fer yfir hálfan hnöttinn til miðlara okkar á Íslandi og aftur til baka til bankans í Afríku og því næst aftur til Íslands og á endanum til baka í síma kaupmannsins með greiðsluheimild. Þetta gerist samt mjög hratt og kaupmaðurinn tekur ekkert eftir þessu ferðalagi. Kortagreiðslan er einnig mjög örugg,“ segir Davíð og bætir við að gert er ráð fyrir því að afhenda þrjátíu þúsund snjallposa á næstu 5 árum til Afríku, sem er meira en tvöfalt það magn af posum sem eru í keyrslu á Íslandi. „Jafnframt erum að vinna að svipuðum samningum í öðrum heimsálfum og tækifærin í snjallgreiðslum þekkja engin landamæri.“

Nánar er rætt við Davíð í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.