Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Handpoint hlaut verðlaunin „Financial Technology Innovations Awards”, en þau voru afhent í Lundúnum á miðvikudagskvöldið að viðstöddum nokkur hundruð aðilum úr nýsköpunar- og fjármálaheiminum í Bretlandi. Handpoint var verðlaunað fyrir bestu lausnina í flokknum “Mobile POS” fyrir greiðslulausn sem fyrirtækið hefur þróað fyrir snjallposa.

Verðlaunin koma í kjölfar þess að Handpoint hlaut verðlaunin „Payments Awards” í Bretlandi í nóvember á síðasta ári fyrir einstaka útfærslu á öryggi við framkvæmd kortagreiðslna.

Í tilkynningu er haft eftir Davíð Guðjónssyni, framkvæmdastjóra Handpoint að það sé mikill heiður að veita þessum verðlaunum viðtöku. Valið sé staðfesting á því frumkvöðlastarfi og þeirri miklu vinnu sem starfsfólk fyrirtækisins hafi lagt á sig undanfarin misseri. Hann segir það sýn fyrirtækisins að tæki eins og snjallsímar og spjaldtölvur muni verða allsráðandi innan skamms í rekstri verslana. Það að litlir kaupmenn þurfi að fjárfesta í dýrum sérhæfðum vél- og hugbúnaði til að stýra sinni verslun, muni brátt heyra sögunni til.

Handpoint er með skrifstofur við Digranesveg í Kópavogi, í Cambridge í Englandi og Palo Alto í Bandaríkjunum. Auk stofnenda og starfsmanna er fyrirtækið í eigu Frumtaks fjárfestingajóðs og fjárfestanna Þórðar Magnússonar og Magnúsar Inga Óskarssonar.