*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 29. janúar 2019 08:32

Handslökkvitæki notað á eld í olíutanki

Eldur kom upp í olíuskán á þaki olíutanks í Örfirisey eftir logsuðuvinnu á tómum tankinum.

Fjölmargir olíutankar ekki ósvipaðir þessum eru í Örfirisey, vestast í Reykjavík, en því fylgja gríðarlegir olíuflutningar um stofnbrautir borgarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Laust eftir kl. 17 í gær var tilkynnt um eld í tómum olíutanki í eigu Skeljungs í olíustöðinni í Örfirisey segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Umræddur tankur, sem notaður er undir úrgangsolíu frá skipum og smurstöðvum, hafði nýlega verið tæmdur og gasfríaður vegna viðhalds og endurbóta og stóð opinn. 

Unnið hafði verið við að sjóða stút í þakið til að koma fyrir öryggis og eftirlitsbúnaði. Vinnan við tankinn var framkvæmd samkvæmt heimild til heitrar vinnu. Þegar þeirri vinnu var lokið varð starfsmaður var við að eldur logaði í því sem reyndist vera olíuskán, sem var á burðarvirki á þaki tanksins. Um var að ræða staðbundinn og lítinn eld sem var slökktur með handslökkvitæki. 

Í samræmi við viðbragðsáætlun olíubirgðastöðvarinnar var atvikið strax tilkynnt til Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sem setti viðbúnað í gang, en þar sem eldurinn var strax slökktur af starfsmönnum stöðvarinnar með handslökkvitæki, var viðbúnaðurinn afturkallaður. 

Enginn slys á fólki urðu vegna eldsins og ekki er um að ræða tjón á búnaði eða eignum. Atvikið verður rannsakað og niðurstöður rýndar með stjórnendum, starfsmönnum og eftirlitsaðilum stöðvarinnar, sér í lagi með tilliti til þess hvort uppfæra þurfi einhverja vinnuferla til þess að koma í veg fyrir frávik sem þessi. 

Stikkorð: Skeljungur Örfirisey eldur olíutankur