*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 22. október 2020 08:05

Handsmíðað í Hafnafirði

Afkoma fjölskyldufyrirtækisins RB rúma, sem er Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, var jákvæð á síðasta ári.

Ritstjórn
Birna Katrín Ragnarsdóttir er framkvæmdastjóri RB rúma.
Gígja Einars

Fjölskyldufyrirtækið RB rúm hefur verið starfrækt frá árinu 1943 og fagnar því bráðlega 80 ára afmæli. Birna Katrín Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri RB rúma, segir að rekstur félagsins sé mjög stöðugur og hafi verið það í gegnum árin. Hún segir viðskiptavini RB rúma sýna mikla tryggð sem skýri að hluta traustan rekstur þess, ár frá ári.

Afkoma RB rúma dróst þó saman um þriðjung milli ára og nam tæplega 33 milljónum króna í fyrra en ríflega 48 milljónum árið áður. Birna segir að afkomusamdráttur hafi ekki komið á óvart og sé ekki endilega eitthvað sem þau missi svefn yfir. Megi samdráttinn rekja til almennrar hækkunar birgja en líka þeirrar stefnu að fara í innkaup á dýrari aðföngum og meiri gæðum samhliða því að hækka ekki vöruverð sitt.

„Reksturinn er og hefur eiginlega alltaf verið sambærilegur milli ára. Á þessu ári breyttist það helst að við erum byrjuð að kaupa gæðameira hráefni. Hráefniskostnaðurinn hækkaði talsvert samhliða því en við hækkuðum verðið ekkert á móti og kemur sú þróun bersýnilega fram í afkomutölum félagsins," segir Birna.

Sala RB rúma jókst um fjórar milljónir króna milli ára og nam 258 milljónum króna í fyrra. Rekstrargjöld jukust um nær tuttugu milljónir og námu tæplega 225 milljónum. Þar af nam beinn framleiðslukostnaður 194 milljónum króna. Aðföng félagsins kostuðu ríflega 93 milljónir króna árið 2019 og hækkaði sá kostnaður um ríflega fimmtung milli ára.

Félagið hefur verið og vill teygja sig enn lengra í átt að persónumiðaðri þjónustu, eitthvað sem hefur tryggt farsæld félagsins í gegnum árin að mati Birnu. Hún telur að stafræn þróun gefi félaginu og áherslu þess á vandaða vöru byr undir báða vængi. Með tilkomu netmiðla, líkt og Pinterest og Instagram, hefur áhugi fólks stóraukist að fá að taka sjálft þátt í hönnun og lokaútliti vörunnar.

Framleiðsla til margs um gæði

Af fimmtán starfsmönnum RB rúma starfa einungis tveir við afgreiðslu. Meginþorri starfskrafts RB rúma starfar við að bólstra, smíða, sauma og önnur tilfallandi verkefni framleiðslunnar sem á sér stað í sama rými og verslunin sem er í Hafnarfirði. Vörur þeirra fyrir utan smávöru eru handsmíðaðar á staðnum „frá a-ö“ sem þætti kannski gamaldags en er að sama skapi til marks um gæði, að sögn Birnu. Í gegnum árin hafa um 80% af sölu fyrirtækisins verið stærri vörur líkt og rúm og dýnur. Undanfarin ár hefur verið aukin eftirspurn eftir smávörum líkt og rúmgöflum, kistlum, bólstrun og tengdum vörum sem eru allt að 30% af tekjum félagsins í dag.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.