Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.

Þannig byrjar 17. kafli almennra hegningarlaga (lög nr. 19/1940) en sem kunnugt er var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings, handtekinn á dag m.a. á grunni þessara laga.

Fram kemur í lögunum að hafi verið um lítilræði að tefla, eða miklar málsbætur eru að öðru leyti, einkum ef fremjandi hefur ekki ætlað að baka öðrum tjón, má beita 1-2 ára fangelsi eða sektum.

Farið var fram á tveggja vikna gæsluvarðhald yfir Hreiðari Má. Hann var einnig handtekinn fyrir auðgunarbrot skv. 26. kafla almennra hegningarlaga,  brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti þ.m.t. markaðsmisnotkun og loks brot gegn hlutafélagalögum.

Í lögum um verðbréfaviðskipti er fjallað um markaðsmisnotkun með þeim hætti að þar sé um viðskipti eða tilboð að ræða sem „gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna.“

Jafnframt að viðskiptin eða tilboð tryggi óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum, nema aðilinn sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði,

Þá gæti markaðsmisnotkun átt við um viðskipti eða tilboð sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku, dreifa upplýsingum, fréttum eða orðrómi sem gefa eða eru líkleg til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga, enda hafi sá sem dreifði upplýsingunum vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi.

Hámarksrefsing fyrir brot á þessum lögum er sex ára fangelsi.