Lögregla í Bandaríkjunum hefur handtekið starfsmann hjá AOL og ákært fyrir sölu á listum með tölvupóstföngum viðskiptavina AOL.

Þetta mun vera í fyrsta skipti sem lögregluyfirvöld vinna eftir nýrri löggjöf um fjöldasendingar á tölvupósti, eða svokölluðum spam-sendingum. Starfsmaður AOL er ásakaður um að hafa selt fyrirtæki sem stundar slíkar tölvupóstsendingar, lista með 92 milljón tölvupóstföngum. Talsmaður AOL segir þó ekkert benda til þess að aðrar upplýsingar svo sem um kreditkort eða leyniorð viðskiptavina, hefðu verið seldar enda séu þær upplýsingar varðveittar í öðrum gagnagrunni en þeim starfsmaðurinn seldi netföngin úr.

Samkvæmt nýju lögunum um fjöldasendingar tölvupósts er óheimil sending slíks pósts brot á alríkislögum og á hinn ákærði yfir höfði sér dóm um allt að fimm ára fangelsisvist auk sektar upp á 250 þúsund dollara.