Sex einstaklingar voru handteknir í Schaerbeek-hverfinu í Brussel í gærkvöldi vegna rannsóknar á hryðjuverkaárásinni í borginni á þriðjudaginn. Ekki hefur enn verið greint frá því hverjir hinir handteknu eru, en lögreglan leitaði hús úr húsi. Íbúar í grenndinni segjast hafa heyrt sprengingar en ekki er víst hvers vegna.

Þá handtók lögregla í Frakklandi mann nálægt París sem grunaður var um að áforma hryðjuverkaárás, að sögn BBC . Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, segir að skipulagning árásarinnar hafi verið komin vel á veg.

Franskir miðlar greina frá því að um sé að ræða Reda Kriket, sem var sakfelldur af dómstól í Brussel í fyrra fyrir að fá einstaklinga til að ganga til liðs við Íslamska ríkið og berjast í Sýrlandi. Hann var sakfelldur ásamt Abdelhamid Abaaoud, sem er talinn hafa staðið að baki skipulagningu hryðjuverkanna í París í nóvember.

Belgísk stjórnvöld viðurkenndu í gær að hafa gert mistök með því að hunsa skilaboð tyrkneskra stjórnvalda þess efnis að Brahim el-Bakraoui, einn þeirra sem stóðu að hryðjuverkaárásinni í Brussel á þriðjudaginn, væri öfgamaður. Greint var frá því í gær að innanríkisráðherra og dómsmálaráðherra Belgíu hafi boðist til að segja af sér vegna árásarinnar en forsætisráðherrann neitaði þeirri beiðni.