Hangikjöt verður á borðum 69% landsmanna á jóladag, líkt og verið hefur, en grænmetisfæði fer vaxandi og hyggjast heil 6% þeirra sem eru undir þrítugu hafa grænmeti fyrir aðalrétt á jóladag. Í könnun MMR um málið var spurt: Hvað er líklegast að þú munir borða sem aðalrétt á jóladag?, en hún var framkvæmd dagana 5. til 11. desember síðastliðinn.

Kváðust 69% svarenda ætla að borða hangikjöt sem aðalrétt á jóladag, sem er fækkun frá 72% í fyrra, en þá fjölgaði þeim frá 67,9% frá árinu 2016. Eilítil fækkun hefur verið síðustu ár meðal þeirra sem borða hamborgarahrygg á jóladag, úr 9,8% árið 2016, í 9,0% í fyrra og 8,8% í ár.

Hæsta hlutfall fiskáts síðan 2010

Annað sem mældist er að 4% sögðust ætla að borða kalkún, 4% lambakjöt annað en hangikjöt og 3% grænmetisfæði. Þá ætla 2% að neyta fisks eða annars sjávarfangs í aðalrétt á jóladag en hlutfallið er það hæsta sem mælst hefur frá því að mælingar MMR hófust árið 2010.

Að lokum kváðust 10% svarenda hafa hug á því að borða annars konar mat en nefndur var hér á undan. Ef niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir aldursflokkum sést að 76% þeirra sem eru á aldrinum 50-67 ára kváðust ætla að borða hangikjöt sem aðalrétt á jóladag, en meðal þeirra sem eru 18-29 ára var hlutfallið 62%.

Landsbyggðin sem fyrr hefðbundnari en borgin

Hamborgarahryggurinn átti mest upp á borð hjá eldri svarendum en þeim yngri en 19% þeirra 68 ára og eldri kváðust ætla að fá sér hamborgarahrygg. Þá kváðust 6% þeirra 18-29 ára ætla að gæða sér á grænmetisfæði en 13% þeirra 30-49 ára kváðust ætla að borða annars konar mat sem aðalrétt á jóladag.

Svarendur af landsbyggðinni voru líklegri til að segjast ætla að borða hangikjöt, eða 74% þeirra sem og hamborgarahrygg eða 11% þeirra heldur en þeir af höfuðborgarsvæðinu. Íbúar höfuðborgarsvæðisins kváðust aftur á móti líklegri til að borða grænmetisfæði eða 5% þeirra eða annars konar mat en þann sem hér er upptalinn, eða 11% heldur en landsbyggðarbúar.

Flokksmenn fólksins tryggastir hefðinni en Viðreisn og VG síst

Ef niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir stuðningi við stjórnmálaflokka sést að hangikjötið nýtur meiri vinsælda sem aðalréttur á jóladag meðal stuðningsfólks Flokks fólksins eða 80% þeirra heldur en á meðal stuðningsfólks annarra flokka.

Annað lambakjöt reyndist einnig vinsælla á meðal stuðningsfólks Flokks fólksins en 16% þeirra kváðust ætla að borða lambakjöt annað en hangikjöt á aðfangadagskvöld. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Sjálfstæðisflokkinn sögðust 13% ætla að borða hamborgarahrygg sem aðalrétt á jóladag.

Grænmetisfæði verður hvað helst á borðum hjá stuðningsfólki Viðreisnar, eða 15% en stuðningsfólk Vinstri grænna, eða 13% þeirra reyndist líklegra en stuðningsmenn annarra flokka til að ætla að borða annað en ofantalið.