Hér á landi hefjast jólin á slaginu sex á aðfangadag og standa fram á þrettándann. Á vef Þjóðminjasafnsins er að finna skemmtilegar greinar um jólahátíðina, sem byggja að mestu á bókum Árna Björnssonar: Sögu daganna og Sögu jólanna. Raunar er einnig vitnað í bók Hallgerðar Gísladóttur: Íslenska matarhefð.

Á norðurslóð eiga jólin sér ævaforna sögu tengda vetrarsólhvörfum. Heimildir eru til sem benda til þess að á þjóðveldisöld hafi það þótt brýnasta nauðsyn að menn fengju nýtt kjöt um jólin.

„Ekki er vitað nákvæmlega hvenær jól voru haldin í heiðnum sið en sennilegt þykir að það hafi verið gert með fullu tungli í skammdeginu,“ segir í grein á vef safnsins. „Ekki vita menn heldur hvernig heiðin jól voru haldin, nema þau voru „drukkin“ með matar- og ölveislum og buðu íslenskir höfðingjar oft fjölmenni til jóladrykkju.“

Epli og appelsínur

Fram eftir öldum slátruðu bændur vænni kind fyrir jólin svo að heimilisfólkið gæti fengið nýslátrað kjöt í jólamatinn. „Hins vegar fór þetta allt eftir efnahag bændanna og ekki gátu allir séð af heilli kind um jólaleytið. Þá var brugðið á það ráð að bjóða upp á næstbesta kostinn sem var reyktur matur á borð við hangikjöt sem síðar varð einn vinsælasti jólamatur landsins og mörgum þykir enn í dag ómissandi um jólin.“

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .