Sigurður B. Sigurðsson stofnandi og eigandi veitingastaðarins Hanans sem starfað hefur í Skeifunni í um áratug ætlaði að opna nýjan veitingastað úti á Granda stuttu áður en samkomubannið varð að veruleika 13. mars síðastliðinn, en eins og margt annað fór verkefnið á ís vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Það er kannski til marks um að líf sé að færast aftur í samfélagið nú eftir að samkomubannið var víkkað út 4. maí síðastliðinn að nú hyggst hann opna staðinn loks í dag, nærri þremur mánuðum eftir að Viðskiptablaðið ræddi við hann um nýja staðinn .

„Við opnuðum ekkert fyrir samkomubann þannig að fyrsti dagur er á morgun,“ segir Sigurður en staðurinn í Skeifunni hefur verið opinn allan tímann.„Við náðum að halda opnu allt samkomubannið, þurftum að loka nokkrum borðum og telja inn á staðinn. Eftir að það var hækkað upp í 50 höldum við samt enn sama borðskipan og förum ekki með matinn á borðin til viðskiptavina.“

Sigurður segir að engin sérstök opnunartilboð verði á nýja staðnum, en hann hefur þegar sett í gang sérstakan facebookleik enda sagði hann á sínum tíma aldrei hafa þurft að auglýsa.

„Ég hef aldrei auglýst út á við, viðskiptavinurinn hefur alveg séð um það sjálfur.[...]Sumir viðskiptavinir koma mörgum sinnum í viku, og ég eflaust grætt á aukinni áherslu á hollustu, en við djúpsteikjum ekki, heldur gufusjóðum allan kjúklinginn og síðan er hann grillaður fyrir framan viðskiptavininn,“ sagði Sigurður þá.

„Nýi staðurinn er á besta stað á milli pitsustaðarins Flateyjar og ísbúðarinnar Valdísar, en þarna var í um fimmtíu ár fyrirtækið Klif sem þjónustar sjávarútveginn. Matseðillinn verður eins, en húsnæðið er ólíkt minna, svo við verðum með háborð og kolla og náum mögulega þannig meira flæði.“