Um leið og Reinhard Siekaczek, fyrrum yfirmaður hjá Siemens sem talinn er lykilmaður í stórfelldu mútumáli því sem upp er komið, var handtekinn árið 2005 vísaði hann á tugi manna sem hann sagði viðriðna málið, að því er fram kom í máli saksóknara sem kallað var til vitnis fyrir dómi í Munchen í dag.

Talið er að múturnar hafi numið á annan hundrað milljarð króna.

„Hann hratt skriðunni af stað,” sagði Hildegard Haeumler-Hoesl, saksóknarinn þýski. Nafnlaus ábending til lögregluyfirvalda leiddi til handtöku Reinhard Siekaczek.

Ekki aðeins nafngreindi Siekaczek flesta þá sem hann sagði gjörþekkja mútukerfi Siemens, heldur færði hann rannsóknaraðilum tvær ferðatöskur úttroðnar skjölum varðandi málið og útbjóð ítarlegan lista um hina meintu sökudólga og vitorðsmenn sína.

Um 300 aðilar sæta nú rannsókn þýska yfirvalda í tengslum við vætti hans, þar af um 100 mann sem beinlínis tengjast málinu.

Kveðst hafa viljað sundra mútukerfinu

Siekaczek bar það fyrir rétti í München á mánudag að hann hefði farið á fund þáverandi yfirmanns síns árið 2004, Thomas Ganswindt, fyrrum framkvæmdastjóra fjarskiptabúnaðardeildar fyrirtækisins, og farið fram á að viðamikið og flókið mútukerfi fyrirtækisins yrði lagt niður.

Fundurinn hefði hins vegar ekki leitt til neinna breytinga.

Siekaczek kveðst hafa þróað mútukerfið að beiðni yfirmanna sinna hjá Siemens í kjölfar þess að árið 1998 var sett löggjöf í Þýskalandi er meinaði fyrirtækjum að liðka fyrir samningum með óeðlilegum peningagreiðslum.

Hvert brota hans varða fimm ára fangelsi, auk þess sem hans bíða fjársektir, verður hann fundinn sekur um ákæruliðina.