Bátarnir eru hannaðir til að vera með sjálfvirkri beitingarvél og verður þeim stefnt á veiðar á smokkfisk og bolfisk sem fram til þessa hefur verið veiddur með frumstæðum aðferðum í þessum heimshluta. Auk línuveiða með beitingarvél er einnig gert ráð fyrir þeim möguleika að veiða með flotlínukerfi án beitingarvélar. Jafnvel er hugsanlegt að einhver bátanna verði útbúinn fyrir gildruveiðar eða jafnvel netaveiðar.

Alfreð Tulinius skipahönnuður og stjórnarformaður Nautic og einn eiganda NauticRus, skipahönnunarstofu í Pétursborg í Rússlandi, segir hönnun bátanna langt komna og flest bendi til að þeir verði smíðaðir í tyrkneskri skipasmíðastöð.

Full stjórn á skrúfu

„Samstarfsaðilar okkar hyggjast taka skrefið lengra og báðu okkur að hanna bátana þannig að þeir hentuðu til veiða víðar en við strendur Afríku. En hvað varðar bátana sem verða notaðir við Afríku þá setjum við í þá „diesel-electric” aflrás með rafmótor sem er tengdur við gír og þaðan í skiptiskrúfu sem gefur þann möguleika að vera með fulla stjórn á snúningshraða og stigningu á skrúfunni. Allar þessar veiðar, net-, línu-, flotlínu- eða gildruveiðar eru allar svokallaðar andófsveiðar. Skipið er bara á dóli og orkuþörfin er lítil við sjálfar veiðarnar en til staðar er meiri orka til þess að taka skipið á vissan hraða þegar haldið er í land,” segir Alfreð.

Hann segir að öll orkuframleiðslan fari fram með „sprengihreyfli” og hann notar það hugtak vísvitandi í stað dísilhreyfils vegna þess að ætlunin sé að bjóða upp á sprengihreyfil sem brennir metanóli til framleiðslu á rafmagni fyrir rafmótor þar sem innviðir bjóði upp á slíkt.


  • Alfreð Tulinius skipahönnuður og stjórnarformaður Nautic. Aðsend mynd

„Á Íslandi getum við boðið upp á þessa lausn með því að sprengihreyfillinn væri knúinn af metanóli. Rússneski samstarfsaðilinn okkar er að skoða þessa lausn en hefur ekki tekið endanlega ákvörðun í þeim efnum. Innviðirnir eru ekki til staðar í Afríku en þeir hugsa lengra með mögulegri notkun slíkra báta í Rússlandi og þar er þróun í átt að hreinni orkugjöfum. Það er orðið mótuð framtíðarsýni í landinu. Rússsar gera sér grein fyrir því að þeir eru ekki eyland og þrátt fyrir að þeir séu olíuframleiðsluríki vita þeir að ekki verður skorast undan því að vera þátttakandi í alþjóðasamfélaginu.”

Metanól fyrir Ísland?

Alfreð hefur búið að stórum hluta í Rússlandi undanfarin ár og rekið þar NauticRus verkfræðistofuna í Pétursborg, sem m.a. hefur hannað tíu skip fyrir útgerðarrisann Norebo. Hann segir að viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja á Rússland, sem staðið hafa frá 2015, hafi alið af sér þá stefnu í landinu að það verði sjálfu sér nægt á flestum sviðum. Í tengslum við svokallaða fjárfestingakvótaleið skulu skipin vera hönnuð í Rússlandi og þar spilar NauticRus stórt hlutverk í starfsemi Nautic. Skrokkar þessara fimm báta eru að öllu leyti hannaðir þar en öll útfærsla og útfærsla búnaður hjá Nautic á Íslandi. Því meira sem telst rússneskt við skipið því meiri ívilnun er í boði frá rússneskum stjórnvöldum. Ívilnunin getur falist í lægri sköttum og meiri kvótum fyrir skipin.

Gerðir voru sérstakir útreikningar fyrir orkuþörf bátanna fyrir línuveiðar og var niðurstaðan sú orkuþörfin fyrir skipið fullestað á 10 mílna hraða er um það bil 400 kW.

„Við setjum tvo sprengihreyfla í skipin því við viljum að þeir geti afkastað samtals 600 kW. 400 kW geta farið út í skrúfu á siglingarhraða og 200 kW í íbúðir, krapavél, frystingu á beitu, kælingu á lest, hliðarskrúfur og annað tilfallandi.”

Settar skorður

Heyrst hefur að hugsanlega verði settar skorður við lengd dragnótarbáta í íslensku reglugerðaumhverfi. Hugsanlegt er að miðað verði við báta allt að 20 metra á lengd. Nautic er með fótinn í startblokkinni og hyggst útfæra 20 metra langa bátinn einnig fyrir línu- og dragnótarveiðar á Íslandi í hybrid-útfærslu og jafnvel með brunahreyfli sem brennir metanóli séu innviðirnir til staðar. Alfreð bendir á að framleiðslugeta á metanóli sé fyrir hendi innanlands.

Bátarnir sem eru í hönnun fyrir rússnesku samstarfsaðilana kostar hver um 600 milljónir króna með öllum búnaði. Líklegt er að viðræður fari af stað um smíði bátanna strax í næsta mánuði en Alfreð telur sennilegt að þeir verði smíðaðir í Tyrklandi. Nautic hefur átt farsælt samstarf við Celitrans skipasmíðastöðina sem smíðaði m.a. ísfisktogara HB Granda, nú Brims, Viðey, Engey og Akurey og hefur nýlega gert samning um smíði á togara fyrir RAMMA samkvæmt hönnun frá Nautic ehf.