Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi. Með því slær hún á vangaveltur um að hún ætli sér að bjóða sig aftur fram gegn sitjandi formanni flokksins, Bjarna Benediktssyni.

Fyrr í dag birtist skoðanakönnun þar sem fram kom að mikill meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins telji að Hanna Birna Kristjánsdóttir yrði sterkari formaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Hanna Birna sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í dag:

„Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi flokksins. Með framboði mínu vil ég styrkja þá öflugu forystusveit sem Sjálfstæðisflokkurinn býr að um land allt, fá tækifæri til að vinna frekar að þeim breytingum sem þurfa að verða í stjórnmálum og leggja góðum verkum lið - í þágu hugsjóna Sjálfstæðisflokksins og hag alls almennings á Íslandi.

Í komandi kosningum skiptir miklu að Sjálfstæðisflokkurinn nái góðum árangri og stuðli að nauðsynlegum breytingum til að binda enda á þá kyrrstöðu sem hér hefur hamlað uppbyggingu, framförum og lífskjörum á síðustu árum. Aðeins með því að koma núverandi ríkisstjórn frá getum við vænst þess að skattar og skuldir lækki, atvinna aukist og Ísland verði land tækifæra, lífsgæða og farsælla lausna.

Ég vil leggja mitt af mörkum til að slík framtíð bíði Íslendinga og mun því óska eftir stuðningi á landsfundi til að taka að mér frekara forystuhlutverk fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“