Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, bað Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra, afsökunar í viðurvist Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, vegna framgöngu hennar við rannsókn lekamálsins. Þetta kemur fram í skýrslu umboðsmanns um málið, sem birt hefur verið á vef embættisins.

Þar kemur einnig fram að Hanna Birna hefði sent umboðsmanni bréf þann 8. janúar 2015 þar sem hún hefði lýst því yfir að það hefðu verið mistök af hennar hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna rannsóknarinnar meðan hún stóð yfir.

Hún sæi nú að þessi samskipti hefðu hvorki verið fyllilega samrýmanleg stöðu hennar sem yfirstjórnanda lögreglumála né því að lögreglustjórinn var forstöðumaður þess embættis sem vann að rannsókninni.

Hanna Birna kvaðst nú vita að lögreglustjórinn hafi komið lagalega sem slíkur að stjórn rannsóknarinnar sem forstöðumaður þess embættis sem vann að rannsókninni þrátt fyrir að annað hefði komið fram í samtölum þeirra. Þá tók hún fram að samskiptin hefðu ekki samrýmst nægilega hinni óskráðu hæfisreglu stjórnsýsluréttarins og ekki verið að öllu leyti réttmæt af hennar hálfu gagnvart lögreglustjóranum.