Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir niðurstöður ársreiknings Reykjavíkurborgar staðfesta ónógt aðhald, ófullnægjandi árangur í hagræðingu og almennt ranga forgangsröðun í þágu kerfisins en á kostnað fólksins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins en sem kunnugt er var ársreikningur Reykjavíkurborgar kynntur í dag. Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B- hluta, var neikvæð um 4.675 milljónir króna á árinu 2011. Áætlanir höfðu gert ráð fyrir 3,4 milljarða króna hagnaði.

Í fyrrnefndri tilkynningu segir Hanna Birna ársreikninginn endurspegla ár af mörgum röngum ákvörðunum, hversu illa áætlanir meirihlutans standast og hversu lítill árangur hefur náðst í hagræðingu. Hún segir rekstrarkostnað borgarinnar aukast verulega á milli ára.

„Þannig vex kerfið á kostnað borgarbúa sem þurfa einmitt á því að halda að greiðslubyrði þeirra minnki,“ segir Hanna Birna.

„Borgarbúar líða fyrir það stefnu- og alvöruleysi sem ríkt hefur við stjórn borgarinnar á þessu kjörtímabili. Til að mæta þessum vexti í kerfinu seilist meirihlutinn stöðugt dýpra í vasa borgarbúa og lætur þá greiða fyrir eigið stjórnleysi með stóraukinni skattheimtu.“

Þá segist Hanna Birna krefjast þess að núverandi meirihlutinn tileinki sér önnur og betri vinnubrögð við gerð fjárhagsáætlunar.

„Borgarbúar eru einfaldlega að gjalda fyrir ranga forgangsröðun og vond vinnubrögð þessa meirihluta, samhliða því sem ársreikningurinn staðfestir að meintar hagræðingaraðgerðir meirihlutans skila ekki árangri, enda unnar án nokkurs samráðs við íbúa, starfsfólk eða kjörna fullrúa,“ segir Hanna Birna.