Ekki er ásættanlegt að fækka lögreglumönnum eða lögreglubifreiðum á Suðurlandi. Þetta kemur fram í nýrri frétt á vef innanríkisráðuneytisins. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, fundaði fyrir helgi með sveitarstjórnum og sýslumönnum á svæðinu. Ferðin endaði á fundi með Ólafi Helga Kjartanssyni, sýslumanni og lögreglustjóra á Selfossi og starfsmönnum lögregluembættisins.

Á fundinum ítrekaði Hanna Birna þá afstöðu sína að ekki væri ásættanlegt að fækka lögreglumönnum eða lögreglubifreiðum á svæðinu, líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum að embættið skoði. Vinna hefur staðið yfir á vegum rekstrarteymis ráðuneytisins og stjórnenda löggæslunnar á svæðinu að undanförnu. Sú vinna miðar að því að ekki standi til að fara í meiriháttar breytingar.

Ráðherra minnti jafnframt á á fundinum að vonandi myndi takast að efla löggæsluna enn frekar á komandi árum enda væri það eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar.