*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 24. október 2015 13:16

Hanna Birna ekki hætt í stjórnmálum

Hanna Birna Kristjánsdóttir stígur til hliðar úr embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins en ætlar ekki að yfirgefa stjórnmálin.

Ritstjórn
Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Haraldur Guðjónsson

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í ræðu á landsfundi flokksins fyrir hádegi að það hafi ekki verið auðveld ákvörðun að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. RÚV greinir frá.

Það vakti athygli þegar Hanna Birna tilkynnti að hún myndi ekki sækjast eftir því að vera áfram í embætti en ýmsar ástæður voru fyrir því.

„Stundum er það svo, kæru vinir, að kaldir vindar hafa blásið svo lengi, að jafnvel þær sem þykja extra harðgerar hægrikonur, og eru jafnvel kallaðar ísdrottningar þegar þannig liggur á mönnum, velja að stíga til hliðar,“ sagði Hanna Birna í ræðu sinni, en ítrekaði að hún væri ekki hætt afskiptum af stjórnmálum.

„Ég er fyrsti þingmaður Reykvíkinga. Ég verð áfram í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ég vera í draumstarfinu og það eru engar dramatískar breytingar í undirbúningi á því í bráð. En trúið mér. Ég er í stjórnmálum og ætla að starfa þar áfram og verð á þeim vettvangi áfram.“