Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrv. borgarstjóri og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mun bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta hefur Viðskiptablaðið eftir öruggum heimildum. Hanna Birna mun tilkynna um framboð sitt í dag.

Hanna Birna mun því bjóða sig fram gegn Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins, sem hefur þegar lýst yfir framboði. Landsfundur flokksins verður haldinn dagana 17. til 20. nóvember næstkomandi.

Mikið hefur verið fjallað um mögulegt framboð Hönnu Birnu í fjölmiðlum, og það þótt líklegt. Viðskiptablaðið greindi um miðjan síðasta mánuð frá niðurstöðum könnunar MMR á fylgi Bjarna og Hönnu Birnu. Samkvæmt henni treysta um 70,3% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins Hönnu Birnu betur til að gegna embætti formanns flokksins. Um 29,7% sögðust treysta Bjarna betur.