Útþensla kerfisins á kostnað borgarbúa er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Meirihlutinn seilist enn í vasa borgarbúa þrátt fyrir að skatttekjur A‐hluta borgarinnar fari úr 50 milljörðum árið 2010 í 66,2 milljarða í fjárhagsáætlun 2013.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar sem kynnt var í gær.

Í tilkynningunni kemur fram að á næsta ári muni kerfið kosta 16,2 milljörðum meira en það gerði árið 2010. Vöxtur þess sé því 30% síðan meirihlutinn tók við. Þá segir borgarstjórnarflokkurinn að þetta sé allt á kostnað borgarbúa í formi skatta- og gjaldskrárhækkana.

„Lítið sem ekkert hefur verið hagrætt í kerfinu, þvert á móti eykst kostnaður,“ segir í tilkynningunni.

„Ekkert hefur bólað á því átaki í hagræðingu sem meirihlutinn ætlaði í við upphaf kjörtímabilsins. Hinsvegar hefur meirihlutinn fundið ný verkefni og hlaðið utan á kerfið þannig að það vex frá ári til árs og kostnaður eykst. [...] Frá því meirihluti Samfylkingar og Besta flokks tók við hafa áherslur hans verið þær að sækja stöðugt meira fjármagn til borgarbúa og ganga á ráðstöfunartekjur þeirra, fremur en að líta sér nær og hagræða í kerfinu.“

Þá segir jafnframt að rekstur skrifstofu borgarstjóra sé gott dæmi um hversu mikið kerfið hefur blásið út. Rekstrarkostnaður var 164 milljónir árið 2010 en sé áætlaður 535 milljónir árið 2013 og hafi því þrefaldast á kjörtímabilinu.

Hanna gagnrýndi þetta á borgarstjórnarfundinum í dag:

„Það sem einkennir þessa áætlun, líkt og fyrri áætlanir þessa meirihluta er að enn og aftur er forgangsraðað á kostnað fólksins en í þágu kerfisins,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í tilkynningunni.

„Á valdatíma sínum hér í Reykjavík hefur þessum meirihluta tekist að festa í sessi hærri skatta, meiri skuldir, aukinn rekstrarkostnað og almennt versnandi hag fólksins í borginni. Þetta er ekki bara vond, röng og ósanngjörn þróun fyrir einstaklinga og fjölskyldur í borginni – hún er vond, röng og ósanngjörn fyrir allt samfélagið – þar sem hún dregur úr getu fólks til að nýta tækifærin og hún dregur úr hvatanum til framkvæmda og aðgerða.“