Aðspurð, hvort réttlætanlegt sé að krefja Orkuveitu Reykjavíkur um greiðslu hærra afgjalds við núverandi aðstæður segist Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, vera þeirrar skoðunar að fyrirtæki sem eru í opinberri eigu –og njóta þess að vera í opinberri eigu í formi hagstæðari lána og fyrirgreiðslna – eigi að skila arði til samfélagsins.

„Þannig hefur það verið um langan tíma og sem borgarstjóra ber mér að fylgja þeim ákvörðunum eftir,“ segir Hanna Birna í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það er eðlilegt að borgarstjórn Reykjavíkur óski eftir þessu afgjaldi, föstu afgjaldi á hverju ári, venju samkvæmt. Ég sem borgarstjóri get ekki gefið afslátt af því eða þeim hagsmunum borgarbúa. En í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi hefur Orkuveitan óskað eftir því að fá frest til að greiða fullt gjald. Við tökum mið af því og við þurfum að gæta þess að sýna því skilning, það er það sem við munum gera og þeim verður veittur sá frestur. En ég er þeirrar skoðunar að þegar þú ert með stórt fyrirtæki eins og Orkuveituna, sem nýtur þess að vera í opinberri eigu, þá eigi Reykvíkingar rétt á ákveðnu fjármagni frá fyrirtækinu.“

En talandi um Orkuveituna, veldur skuldarstaða hennar ykkur ekki áhyggjum?

„Skuldastaðan veldur okkur áhyggjum og á að valda okkur áhyggjum,“ segir Hanna Birna en bætir við að nýlega hafi verið hafin vinna sem felur í sér áhættugreiningu á fyrirtækinu til að sjá hvað staða hennar þýðir fyrir Reykjavíkurborg og eigendur.

„Við höfum verið að vinna í þessu og væntum niðurstöðu innan tíðar. En auðvitað höfum við áhyggjur af stöðunni. En um leið og hlutirnir breytast hér á landi þá mun staða fyrirtækisins breytast og verður vonandi þannig að við getum vel við unað.“

En var skuldsetning Orkuveitunnar ekki samt vandræðabarn á tímum R-listans?

„Jú, fjárhagsleg umsvif Orkuveitunnar hafa valdið okkur ákveðnum áhyggjum í langan tíma. Þá umræðu þekkja borgarbúar og ég hef, bæði í minnihluta og meirihluta, talað um það að við þurfum að velta fyrir okkur umfangi Orkuveitunnar í reikningum og rekstri borgarinnar,“ segir Hanna Birna.

Kemur til greina að minnka umsvif Orkuveitunnar?

„Umfang Orkuveitunnar er til stöðugrar skoðunar,“ segir Hanna Birna.

„Þetta er almannaþjónusta sem við verðum að tryggja að sé traust og aðalatriðið er að standa vörð um kjarnastarfsemina. Allt annað verður auðvitað að skoða. Ég treysti því þó að Orkuveitan komist vel frá þessu og standi sterk og öflug. Liður í því er auðvitað að við áttum okkur á þessari stöðu og tökum mið af þessari áhættugreiningu sem nú er í gangi og séum undir það búin að takast á við verkefni fyrirtækisins.“

Nánar er rætt við Hönnu Birnu í Viðskiptablaðinu.