Fyrrverandi innanríkisráðherra, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hefur nú tilkynnt um að hún ætli ekki í framboð á þing í næstu alþingiskosningum. Þetta segir hún í bréfi sem hún sendi til flokkssystkina sinna.

Í bréfinu segist hún vilja leita nýrra áskorana. Hún telur að komið sé að slíkum tímamótum í lífi sínu að hún telji rétt að nýta reynslu sína, orku og starfskrafta annars staðar en á vettvangi stjórnmála. Hún segist þó munu klára kjörtímabilið og mun sitja á þingi fram að kosningum.

Meðal annars segir Hanna í bréfi sínu:

„Þó ástæðan sé einföld var endanleg ákvörðun það ekki.  Frá því ég man eftir mér hef ég haft mikinn áhuga á stjórnmálum og hef notið þess að vinna með ykkur og fyrir ykkur í þágu hugsjóna okkar í Sjálfstæðisflokknum.

Ég er innilega þakklát fyrir þann mikla stuðning sem ég hef ítrekað notið meðal ykkar, stolt af þeim fjölbreyttu verkefnum sem þið hafið treyst mér fyrir og ánægð með þann árangur sem við höfum sameiginlega náð.”