Það virðist almenn og útbreidd skoðun að valdhafar séu í of litlum tengslum við almenning og skorti skilning á aðstæðum hans. Þetta birtist með ýmsum hætti. Þeir sem starfa í stjórnmálum skynja vantraustið daglega og allir þekkja umræðuna um gjána sem sögð er milli þings og þjóðar og hefur verið staðfest þar sem einungis 10% þjóðarinnar bera traust til Alþingis.

Þetta segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrv. borgarstjóri, í grein í Morgunblaðinu í dag. Hanna Birna hefur síðustu vikur skrifað í helgarblað Morgunblaðsins á móti Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, en eðli málsins samkvæmt skrifa þau um hugmyndafræði út frá ólíku sjónarhorni.

Í grein sinni víkur Hanna Birna að frægri sögu um Marie Antoinette, Frakklandsdrottningu, sem á að hafa sagt þessi frægu orð „Af hverju borða þau ekki bara kökur?“ þegar franskur almenningur mótmælti brauðskorti og bágum kjörum árið 1789.

„Síðar hefur verið sagt að Frakklandsdrottning hafi ekki sagt þetta og örugglega ekki meint þetta en ummælin hafa samt lifað sem tákn um skilningsleysi valdhafa gagnvart aðstæðum, lífi og veruleika almennings,“ segir Hanna Birna í grein sinni.

„Svipuð staða birtist í öðrum könnunum þar sem trúin á lýðræðinu minnkar, meirihluti segir stjórnmálaflokka í litlum tengslum við almenning og minnihluti að landinu sé stjórnað í samræmi við vilja fólksins.“

Hanna Birna beinir spjótum sínum að Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og segir að fátt hafi breyst á hinum opinbera vettvangi sem gefi fólki tilefni til þess að trúa því að stjórnmálin snúist raunverulega um það og líf þess. Hanna Birna rifjar upp ummæli Jóhönnu úr nýlegri þjóðhátíðarræðu þar sem Jóhanna sagði að kjörnum fulltrúum hefði mistekist að endurvinna traust þjóðarinnar og það þætti sér mjög miður en úr því þyrfti að bæta.

„Það er rétt að það hefur mistekist að vinna traust og það er líka rétt að þar bera allir kjörnir fulltrúar einhverja ábyrgð,“ segir Hanna Birna.

„En forsætisráðherra gleymir að í krafti síns embættis ber hún mesta ábyrgð og það er því einfaldlega ekki nóg að segja að sér þyki það miður eða að úr því verði bætt. Æðsti pólitískt kjörni fulltrúi þjóðarinnar þarf að sýna í verki að hann bæði hlusti á fólkið í landinu og heyri það sem sagt er. Ef þannig væri stjórnað væri ekki löngum tíma eytt í átök um aðildarviðræður við Evrópusambandið, því valdhafar myndu skilja að það vinnur gegn hagsmunum almennings nú. Löngum tíma yrði ekki eytt í átök um víðtækar breytingar á einni af grunnatvinnugreinum þjóðarinnar, því valdhafar skildu að slík óvissa væri ekki líkleg til að bæta hag almennings. Breytingar á stjórnarskrá, stjórnskipan og stjórnarráði myndu einnig bíða og allt þetta karp um þinghlé, þingsköp og blessað þinghaldið myndi ekki heyrast í samfélagi þar sem brýnustu verkefni valdhafanna tækju mið af því sem helst brennur á fólkinu í landinu.“

Þá segir Hanna Birna einnig:

„Ef stjórnmálamenn myndu leggja sig fram um að hlusta á fólkið og raunverulega heyra það sem það segir, myndi allur þessi tími frekar fara í lausnir þess vanda sem venjulegar fjölskyldur standa frammi fyrir. Mestur tími færi í að skapa fyrirtækjunum og fólkinu tækifæri til að nýta það sem við eigum og höfum til að efla atvinnu, hagsæld og von. Mikill tími og margar andvökunætur færu í aðgerðir til að draga úr skuldavanda heimilanna. Umtalsverður tími yrði svo nýttur til að minnka yfirbyggingu og kostnað kerfisins, svo tryggja mætti lága skatta og sem besta nýtingu fjármagns. Starfshópum opinberra starfsmanna og stjórnmálamanna um allt og ekki neitt yrði fækkað en öll áhersla lögð á að færa vald og val til almennings sjálfs.“

Þá segir Hanna Birna að núverandi valdhöfum hafi ekki tekist þetta og því bíði það verk þeirra sem er reiðubúnir séu að „hlusta, heyra og hefjast handa í þágu fólksins í landinu,“ eins og hún orðar það.