„Við eigum að horfast í augu við það að málið er mjög alvarlegt og þess vegna verðum við að nálgast það þannig,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra um innbrot á vefsíðu Vodafone um helgina. Hún ræddi innbrotið í samtali við Rás 2 í morgun.

Hún segir miklu skipta að fyrirtækið beri mesta ábyrgð á því hvernig fór og fyrirtækið hafi viðurkennt mistök sín. Hanna Birna segir að innanríkisráðuneytið hafi þegar sýnt viðbrögð. Netöryggissveit hafi verið stofnuð og hún sé þegar farin í gang. „Sem er kannski til marks um að íslensk stjórnvöld eru farin að gera sér grein fyrir því að þetta er ógn,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir.

„Eitt er það að það er brotist inn í kerfið hjá Vodafone,“ sagði Hanna Birna og benti á að það væri innbrot og afbrot. Hitt vandamálið lyti að því hvað hefði aðgengilegt. „Og það kemur í ljós að þar er eitthvað sem á ekki að vera,“ sagði Hanna Birna og lagði áherslu á mikilvægi þess að Vodafone hefði viðurkennt sök sína. „Það er mikilvægt að þeir hafi komið fram og útskýrt það að þeirra geymsla hafi ekki verið í samræmi við lög. Og þeir hafi fullvissað fólk um að það verði ekki svoleiðis áfram,“ segir Hanna Birna.