Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir lekamálið orðið að farsakenndu stórmáli. Í bréfi sem hún sendi Umboðsmanni Alþingis í dag segist hún ætla að skoða með sínum nánustu hvort stjórnmálin séu sinn framtíðarstaður eða hvort baráttan fyrir betra samfélagi verði betur háð utan kerfisins en utan þess.

Tilefni skrifanna eru þau að Hönnu Birnu barst í gær þriðja bréfið frá Umboðsmanni Alþingis vegna skoðunar hans á samskiptum hennar við lögreglustjórann í Reykjavík á því tímabili sem lögreglan rannsakaði ráðuneytið og starfsmenn þess í lekamálinu.

Hanna Birna segir í yfirlýsingunni að ekkert nýtt komi fram í bréfi umboðsmanns og það samanstandi af lýsingu umboðsmanns á samtali hans eða einhvers konar yfirheyrslu hans yfir lögreglustjóra, þar sem liðin trúnaðarsamtöl hans við hana og aðra séu sett í óskiljanlegt samhengi og þar sem engum öðrum var gefinn kostur á að tjá sig um málið eða hafa á því skoðun.

Í yfirlýsingunni segir m.a.: „Ég undrast þessi vinnubrögð umboðsmanns, ætla ekki að reyna að útskýra þau eða hafa á þeim aðra opinbera skoðun en þá að vera bæði hugsi og sorgmædd yfir því á hvaða stað ýmsar stofnanir landsins eru og hvernig þær geta ólíkt lýðræðislega kjörnum fulltrúum eða dómstólum sett fram eigin dylgjur og dóma án rökstuðnings eða réttarhalda. Ég tel einnig að öll atburðarásin í kringum þetta mál, sem manna á meðal er kallað lekamálið, hefði miklu frekar átt að gefa umboðsmanni tilefni til vangaveltna um stöðu og sjálfstæði lýðræðislega kjörinna einstaklinga gegn einstaka stofnunum í stjórnkerfinu – heldur en því að gera samskipti sem báðir aðilar hafa sagt fullkomlega eðlileg tortryggileg með einhliða skoðun.“

Þá segir Hanna Birna að málið hafi vissulega reynst erfitt fyrir sig en umboðsmaður, líkt og fleiri sem hafa fjallað um málið, virðist hins vegar ekki átta sig á því að hennar pólitísku óþægindi hafi aldrei snúið að því að upplýst verði um hvort og hvernig trúnaðargagn fór frá ráðuneytinu. „Ég hef viljað upplýsa um það frá upphafi og fá úr því skorið hvort umrætt gagn hafi farið frá ráðuneytinu eða verið tekið þaðan ófrjálsri hendi og síðar verið átt við það. Það hefur heldur ekki verið pólítískt óþægilegt fyrir mig að sæta rannsókn enda hef ég aldrei afhent trúnaðargagn úr ráðuneytinu, hef enga staðfestingu um að það hafi verið gert af mínu samstarfsfólki, en mun hvorki verja það né láta það viðgangast hafi slíkt gerst.“

Að lokum segir í yfirlýsingunni:

„Ég mun nýta það svigrúm næstu misseri til að skýra betur en ég hef áður getað hvernig þetta smáa mál í stórum verkahring ráðuneytisins hefur orðið að farsakenndu stórmáli og hvernig það horfir við mér pólitískt – en einnig til að taka persónulega ákvörðun um það með mínum nánustu hvort stjórnmálin eru minn framtíðarstaður eða hvort baráttan fyrir betra samfélagi verði betur háð utan kerfisins en innan þess."