Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sitji með fullum stuðningi í ríkisstjórn, líkt og aðrir ráðherrar.

Í samtali við mbl.is segir Bjarni það fráleitt að þurfa að gefa út traustsyfirlýsingar í hverju skrefi málsins. Mikið hefur verið rætt um lekamálið svokallaða að undanförnu og hvort Hanna Birna njóti trausts í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Sérfræðingar hafa haldið fram að mikilvægt sé fyrir stöðu Hönnu Birnu að formaður flokksins stigi fram og lýsi yfir trausti á hana. Bjarni segist ekki skilja allt þetta tal um traustsyfirlýsingar. Á meðan ráðherrar sitji þá njóti þeir, eðli málsins samkvæmt, trausts og ef traustið glatist þá taki þeir pokann sinn. Hann segist enn ekki hafa séð ástæðu fyrir ráðherra til þess að stíga til hliðar.

Að sögn Bjarna er það annað mál hvort ráðherra eigi að sitja í ráðherrastól á meðan rannsókn málsins stendur yfir. Það sé þó ekki spurning um traust, heldur hvernig best sé að tryggja að rannsókn málsins gangi eðlilega fyrir sig.