Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur snúið við ákvörðun forvera síns, Ögmundar Jónassonar, þáverandi innanríkisráðherra, um að herða reglur um fasteignakaup útlendinga sem búa á EES svæðinu.

Með reglugerð sem Ögmundur Jónasson undirritaði þann 17. apríl síðastliðinn voru reglur um jarðarkaup hertar verulega. Breytingarnar fólust í því að erlendum aðila með lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu varð óheimilt að kaupa fasteignir hér á landi nema kaupin væru sannarlega liður í því að hann nýti rétt sinn til að hafa hér á landi lögmæta dvöl eða starfsemi.

Reglugerðin þótti orka tvímælis og til dæmis fullyrti Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að hún bryti væntanlega í bága við EES-samninginn. Það kom enda á daginn að ESA, Eftirlitsstofun EFTA, dró lögmæti breytinganna í efa og bjóst við því að ESA myndi stefna Íslandi fyrir EFTA dómstólinn.

Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur nú snúið þessari ákvörðun forvera síns við og kynnti hún nýja reglugerð á ríkisstjórnarfundi í morgun. Í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu kemur fram að ráðherra hyggst hefja heildarendurskoðun á reglum um rétt útlendinga til að öðlast eignarétt og afnotarétt yfir fasteignum. Þá telur ráðherra æskilegt að endurskoða lagaumhverfi sem um eignarétt og afnotarétt fasteigna gilda hér landi í samvinnu við önnur ráðuneyti eftir því sem við á.