„Þetta er fyrst og síðast hans ákvörðun,“ segir Hann Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún var bæði spurð að því í kvöldfréttum RÚV hvort hún teldi að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, muni segja af sér og hvað henni finnist um skoðanakönnun Viðskiptablaðsins sem Bjarni gagnrýndi harðlega í gær.

Á fimmtudag birti Viðskiptablaðið könnun í morgun þar sem spurt var um fylgi almennings til einstakra stjórnmálamanna og það hvort að viðkomandi myndi frekar kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir væri formaður flokksins. Þar kemur fram að nær helmingur þeirra sem ætla sér að kjósa Framsóknarflokkinn í komandi kosningum myndi örugglega eða líklega kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna væri formaður flokksins og leiddi hann í gegnum Alþingiskosningar. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19-23% fylgi í skoðanakönnunum. Bjarni sagði svo í viðtali við RÚV í gærkvöldi að hann væri að íhuga stöðu sína innan flokksins.

Kveikjan er staða flokksins

Hanna Birna sagði Bjarna verða að skoða stöðu sína sjálfur en viðurkenndi að hún hefði enga hugmynd um það hvenær hann hyggist greina frá ákvörðun sinni hver sem hún verður. Ekki sé að hennar mati gott að skipta um formann flokksins nema um það sé almenn sátt innan hans. Stutt er til Alþingiskosninga eða rétt rúmur hálfur mánuður. Hanna Birna benti á að hún hefði aldrei gefið kost á sér sem varaformaður flokksins á síðasta landsfundi nema vegna þess að hún styðji Bjarna.

Spurð um skoðanakönnun sem MMR vann fyrir Viðskiptablaðið og birt var í gær svaraði Hanna Birna því til að hún hefði ekkert haft með hana að gera.

„Ég held að kveikjan að þessu sé sú hver staða Sjálfstæðisflokksins er,“ sagði Hanna Birna.