„Hið opinbera kerfi mun ekki leysa þann vanda sem við okkur blasir. Við getum tekið þátt í þeirri lausn, og gerum það af fullum heilindum og í takt við skyldur okkar og ábyrgð, en eina leiðin út úr þeim efnahagsvanda sem við okkur blasir er samstillt átak sveitarfélaga, ríkisins, fyrirtækja og heimila í landinu," sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, í umræðum um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010 í borgarstjórn í dag.

Hanna Birna sagði að Reykjavíkurborg þyrfti líkt og heimilin og fyrirtækin í landinu að bregðast við miklum tekjusamdrætti og endurmeta þjónustu, verkefni og allan rekstur.

„Opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, geta farið ólíkar leiðir í þessum efnum. Ein leið væri að hækka skatta á vinnandi fólk, jafnvel búa til nýja skatta og hækka gjöld og láta þar við sitja. En slík leið mun örugglega draga úr frumkvæði og sjálfsbjargarviðleitni einstaklinga og fyrirtækja og getur því leitt til lengri samdráttar,“ sagði borgarstjóri.

Hún sagði verkefni ársins 2010 hjá Reykjavíkurborg yrðu því að standa vörð um þjónustu við börn og velferð og forgangsraða í þeirra þágu án þess að hækka skatta og án þess að hækka gjöld fyrir grunnþjónustu. Þetta yrði gert með því að hagræða í stjórnsýslu og almennum rekstri borgarinnar.

Þetta væri kjarninn í því frumvarpi sem lagt væri fram og yrði leiðarljós við rekstur Reykjavíkurborgar á næsta ári.

Gjaldskrár ekki hækkaðar

„Samkvæmt því frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010, sem ég mæli fyrir hér í dag verða framlög til velferðarþjónustu ekki lækkuð, við stöndum vörð um menntun og þjónustu við börnin í leikskólum og grunnskólum borgarinnar og þjónusta frístundaheimila verður áfram tryggð. Gjaldskrár fyrir grunnþjónustu verða ekki hækkaðar, þar með talið leikskólagjöld, sem eru nú með þeim lægstu í landinu, og matargjöld í grunnskólum og gjaldskrár frístundaheimila verða óbreytt,“ sagði Hanna Birna.