Formlega tekur breytingin gildi á morgun en í dag var samþykkt á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins að Hanna Birna myndi taka við sem formaður utanríkismálanefndar. Birgir Ármannsson fráfarandi formaður utanríkismálanefndar verður fyrsti varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Eins og kunnugt er þá sagði Hanna Birna af sér sem innanríkisráðherra í nóvember í fyrra en settist aftur á þing í vor sem óbreyttur þingmaður. Á morgunvaktinni á rás eitt í morgun sagði Hanna Birna að hún myndi að öðru óbreyttu sækjast eftir endurkjöri sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans í lok október.