Hanna Birna Kristjánsdóttir verður borgarstjóri í nýjum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borginni. Óskar Bergsson, borgarfulltrúi framsóknarmanna, verður formaður borgarráðs.

Þau Hanna Birna og Óskar voru rétt í þessu að greina frá því að samkomulag hefði náðst um samstarf þessara tveggja flokka í Reykjavík. Grundvöllur samstarfsins verður byggður á málefnasamningi flokkanna eftir síðustu borgarstjórnarkosningar vorið 2006.

Aðspurð sögðu þau við fréttamenn í Ráðhúsi Reykjavíkur að fyrri ágreiningur flokkanna hefði verið leystur og að nánar yrði greint frá málefnasamningi næstkomandi fimmtudag.

Þann sama dag mun Hanna Birna taka við lyklavöldum í borginni af Ólafi F. Magnússyni, fráfarandi borgarstjóra. Hanna Birna sagði við fréttamenn að þau Óskar  væru sátt og að hún vonaðist til að borgarbúar væru það líka.

Formlegar viðræður Hönnu Birnu og Óskars hófust í Ráðhúsi Reykjavíkur á níunda tímanum í kvöld.

Skortur á nauðsynlegri málamiðlun

Fráfarandi meirihluti sjálfstæðismanna og Ólafs F. tók formlega við völdum í borginni 24. janúar sl. og hefur því setið fram til þessa dags í samtals 202 daga. Sjálfstæðismenn slitu samstarfinu vegna málefnaágreinings. „Það hefur verið í dálítið langan tíma ákveðinn ágreiningur uppi um stór og mikilvæg mál," sagði Hanna Birna þegar fréttamenn spurðu hana í kvöld út í samstarfsslitin.

Hún bætti því við að Ólafur F. væri sterkur og mikill prinsippmaður og að mati sjálfstæðismanna hefði skort á nauðsynlega málamiðlun. Þá hefðu ákveðin málefni á vettvangi borgarstjórnar, sem skapa þyrfti kyrrð um, verið sett í óþarflega mikinn átakafarveg.

Sá meirihluti sem nú hefur náðst samkomulag um er sá fjórði á kjörtímabilinu.

Yfirlýsingin Hönnu Birnu og Óskars frá því í kvöld er svohljóðandi:

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa ákveðið að hefja á ný meirihlutasamstarf í Reykjavík. Málefnagrundvöllur samstarfsins mun að stórum hluta hvíla á þeim málefnasamningi, sem lá til grundvallar samstarfinu að loknum síðustu kosningum.

Breyttar aðstæður í efnahagsumhverfi kalla hins vegar á ákveðnar viðbætur við þann samning, en þar vega þyngst viðfangsefni á sviði efnahagsmála, fjárhagsáætlunargerðar og atvinnumála.

Nákvæmlega útfærður málefnasamningur verður kynntur á aukafundi borgarstjórnar, sem boðað verður til næstkomandi fimmtudag.

Þá verður einnig kynnt verkaskipting flokkanna en Hanna Birna Kristjánsdóttir mun taka við embætti borgarstjóra og Óskar Bergsson verður formaður borgarráðs.

Borgarfulltrúar beggja flokka vænta mikils af áframhaldandi samstarfi. Flokkarnir eru sammála um að fyrri ágreiningsmál þeirra séu að fullu leyst og telja, að meirihlutasamstarf þessar tveggja flokka muni skila borgarbúum bestum árangri."