Hanna Björg Konráðsdóttir tók nýverið við sem deildarstjóri raforkueftirlits Orkustofnunar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hún hefur frá árinu 2018 verið lögfræðingur raforkueftirlits Orkustofnunar og meðal annars borið ábyrgð á eftirliti með framkvæmd raforkulaga og breytingum í laga- og reglugerðarumhverfi og tilskipunum EES á sviði orkumála.

Áður sinnti hún verkefnum sem lögfræðingur Orkustofnunar og sem verkefnastjóri innlendra og erlendra orku- og auðlindaverkefna hjá GEORG, Geothermal research cluster. Þar áður starfaði hún sem lögfræðingur verkefna Uppbyggingarsjóðs EFTA og sem rekstrarstjóri.

Hanna Björg hefur sinnt kennslu við Háskólann á Bifröst, meðal annars á sviði evrópsks orkuréttar auðlinda, umhverfisréttar, auðlindaréttar og stjórnsýsluréttar. Þá hefur hún flutt ýmis erindi er tengjast lagaumgjörð orkugeirans.

Hanna Björg er með meistarapróf í lögfræði og BS próf í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst og BS í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun, fjármál og markaðsfræði frá Háskólanum á Akureyri.