Hanna Guðrún Sigurjónsdóttir, þroskaþjálfi, var í dag útnefnd Reykvíkingur ársins 2015. Hún var tilnefnd af nágranna sínum í fjölbýlishúsinu að Kóngsbakka í neðra Breiðholti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir jafnframt: „[Hanna Guðrún hefur] verið dugmikil fyrirmynd hvað varðar flokkun á rusli, umhverfisvernd og kærleika og umhyggju gagnvart nágrönnum sínum. Hanna Guðrún hefur verið formaður húsfélagsins í Kóngsbakka um nokkurra ára skeið en þar hefur hún staðið fyrir fræðslustarfi um flokkun sorps sem hefur haft þau áhrif að sorptunnum hefur verið fækkað um tvær í hverjum stigagangi með tilheyrandi lækkun sorphirðugjalda fyrir íbúana.“

„Hanna Guðrún er ótrúleg manneskja og hefur verið frábær fyrirmynd fyrir okkur í Kóngsbakkanum,“ segir nágranni hennar. „Það þyrfti að vera ein svona kona í hverri blokk í Reykjavík.“

Hanna Guðrún starfar sem þroskaþjálfi í Fellaskóla í Breiðholti og þar hefur hún einnig verið virk í umhverfismálum. Frétt Reykjavíkurborgar um Hönnu má í heild sinni lesa hér .